English

Víur, ræktunarfélag um fóðurskordýr, hafa hætt starfsemi.

Fyrirtækið var stofnað árið 2014 stundaði rannsóknir og tilraunaræktun á lirfum svörtu hermannaflugunnar. Aðalhugmyndin var að nýta vannýtta hráefnisstrauma til framleiðslu á fóðurefni í fiskeldi, en margir aðrir kostir voru einnig skoðaðir. Stofnendur voru Gylfi Ólafsson og Sigríður Gísladóttir.

Þegar lagt var af stað var margt óljóst um forsendur skordýraeldis til fóðurgerðar, í tæknilegum útfærslum ræktunar, stöðu á markaði og reglugerðaumhverfi. Smám saman hafa eyður í þekkingu verið fylltar og engin leið fundist til að rækta skordýr á arðbæran hátt.

Helstu ástæður eru fjórar. Í fyrsta lagi er lagaumhverfi Evrópusambandsins um skordýraeldi enn í smíðum en virðist ólíklega ætla að leyfa ýmsar þær hugmyndir sem Víur lögðu til grundvallar sinni viðskiptahugmynd. Í öðru lagi höfum við nú betri sýn yfir þær tæknilegu og líffræðilegu hindranir sem þarf að yfirstíga. Í þriðja lagi er hráefnið ónógt; aukaafurðir úr landbúnaði og matvælaframleiðslu sem henta sem æti fyrir skordýr og munu verða leyfðar til skordýraeldis eru nú þegar afar vel nýttar í annað. Í fjórða lagi virðist ólíklegt að skordýraframleiðsla til manneldis geti orðið arðbær á næstu árum.

Mest störfuðu þrír starfsmenn hjá fyrirtækinu á starfsstöðinni í Bolungarvík, nú síðast líffræðingurinn Aron Dalin Jónasson. Starfseminni var lokað þegar lirfur voru sendar í fóður- og fóðrunartilraunir í samnorrænu verkefni sem Víur hafa verið þátttakendur í undanfarna 18 mánuði. Háskólinn á Hólum hefur tekið yfir flugnastofninn ásamt tækjum og öðrum ræktunarbúnaði fyrirtækisins. Hyggjast Hólamenn meðal annars nýta skordýrin í kennslu á vegum Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna.

Aðstandendur Vía

Aðstandendur Vía

„Þannig má segja að hringnum sé lokað“ segir Sigríður. „Verkefnið hófst og því lýkur hjá Sameinuðu þjóðunum, en til upprifjunar má rekja hugmyndina að Víum til skýrslu FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ) um skordýraát, framtíð þess og möguleika frá 2013.“

Stofnendur munu hafa augun opin fyrir möguleikum í skordýraeldi í framtíðinni og fagna óskum um viðtöl hafi einhver áhuga á þeim lærdómi sem safnast hefur í ferlinu. Gylfi fór í viðtal í hlaðvarpsþættinum Norðurskautinu um nýsköpunarferlið.

Sérstakar þakkir fær Jón Guðbjartsson, starfsfólk Kampa í Bolungarvík, Tækniþróunarsjóður, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Vinnumálastofnun, Birgir Örn Smárason, Jón Árnason, Dr. Þorleifur Eiríksson, Ryan Ham, Katrín Sveinsdóttir, Ingibjörg Þorleifsdóttir, Æsa Ingólfsdóttir, Búi Bjarmar Aðalsteinsson, Stefán Thoroddsen, Smári Karlsson og aðrir sem stutt hafa verkefnið með ráðum og dáð.

Ágúst 2018: Lærdómsskýrsla var að stofni til skrifuð árið 2016 en hefur legið ókláruð síðan þá. Vegna fyrirsjáanlegs tímaleysis er skýrslan birt ófullkomin í núverandi formi á íslensku og ensku.